Sagðist vita hver myrti Palme

Olof Palme.
Olof Palme.

Sænska lögreglan ætlar að yfirheyra Hans Kristian Rausing, sem kenndur er við Tetra Pak-veldið, í tengslum við rannsókn á morðinu á Olof Palme. Eiginkona hans, Eva Rausing, sem lést í sumar, taldi sig búa yfir upplýsingum um morðið.

Eva Rausing lést vegna ofneyslu fíkniefna í London í sumar. Hún hafði legið látin í íbúðinni í 57 daga. Eiginmaður hennar var ákærður fyrir að hafa haft vitneskju um að eiginkona hans væri látin án þess að láta vita af því.

Rausing hafði árið 2011 samband við sænsku lögregluna vegna þess að hún vildi koma á framfæri upplýsingum um morðið. Hún var ekki talin traust vitni og málið var ekki rannsakað frekar.

Breska lögreglan er núna að rannsaka dauða Rausing og í tengslum við þá rannsókn ákvað lögreglan að láta sænsku lögregluna vita um fullyrðingar sem Rausing setti fram í tölvupósti.

Á síðasta ári sendi Rausing rithöfundinum Gunnar Wall, en hann er sérfræðingur í morðinu á Palme, tölupóst þar sem hún fullyrðir að kaupsýslumaður í Svíþjóð hafi staðið að morðinu. Hann hafi óttast að Palme væri með á prjónunum tillögur sem hefðu skaðað fyrirtæki hans og því ákveðið að myrða hann. Rausing segir í bréfinu að maðurinn sé ekki slæmur maður en hún óttist hann.

25 ára gömul óleyst morðgáta

Palme var skotinn til bana þegar hann var að koma út úr kvikmyndahúsi í Stokkhólmi 28. febrúar 1986. Lisbet, eiginkona hans, var með honum.

Christer Pettersson, smáglæpamaður og fíkniefnaneytandi, var þremur árum síðar fundinn sekur um morðið í undirrétti. Hæstiréttur sýknaði hann vegna þess að vafi þótti leika á um sekt hans. Lisbet sagði fyrir rétti að Pettersson væri maðurinn sem hún sá skjóta Palme. Hann lést 2004.

Eva Rausing.
Eva Rausing.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert