Útgöngubann í New Orleans

Frá New Orleans í morgun.
Frá New Orleans í morgun. AFP

Flóðgarðar í borginni New Orleans í Louisianaríki í Bandaríkjunum stóðust þá vatnavexti sem fylgdu í kjölfar fellibylsins Ísaks er hann fór yfir ríkið í gær. Garðarnir voru byggðir eftir að fellibylurinn Katrína olli þar gríðarlegri eyðileggingu árið 2005. Útgöngubann var í borginni í nótt, en þar er mikið óveður.

Nokkuð dró úr styrk Ísaks er líða tók á gærdaginn og er hann nú skilgreindur sem hitabeltisstormur. Hann er nú á leið norður á bóginn, í átt að Arkansasríki, og búist er við að miklar rigningar fylgi honum og miklir vatnavextir og flóð í kjölfarið.

Fjöldi fólks þurfti að láta fyrirberast á húsþökum í New Orleans eftir að vatn fór yfir flóðgarða og þurftu margir að bíða í drykklanga stund eftir aðstoð. Margir halda til í neyðarskýlum sem komið hefur verið fyrir í skólum og öðrum opinberum byggingum.

Íbúar á svæðinu eru hvattir til að halda sig sem mest innandyra, því enn er mikill stormur á þessum slóðum. Einnig er búist við miklu regni í dag og á morgun. Meira en hálf milljón íbúa í Louisianaríki er án rafmagns, auk tugþúsunda í Alabama, Flórída og Mississippi.

Talið er að tjón af völdum Ísaks nemi um 2,5 milljörðum Bandaríkjadollara. Hluti tjónsins varð á olíuvinnslustöðvum í Mexíkóflóa, en Ísak fór þar yfir. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í gærkvöldi að um miklar hamfarir væri að ræða og lofaði allri þeirri aðstoð sem þörf væri á. „Fyrst þurfum við að ganga úr skugga um að allir séu heilir á húfi. Síðan hugum við að uppbyggingu,“ sagði forsetinn.

Frá Louisianaríki.
Frá Louisianaríki. AFP
Margir láta fyrirberast í neyðarskýlum sem komið hefur verið upp …
Margir láta fyrirberast í neyðarskýlum sem komið hefur verið upp í skólum og öðrum opinberum byggingum. AFP
Frá Louisianaríki í morgun.
Frá Louisianaríki í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert