Armstrong borinn til grafar

Flaggað í hálfa stöng við bandarísku geimferðastofnunina.
Flaggað í hálfa stöng við bandarísku geimferðastofnunina. AFP

Flaggað var í hálfa stöng um öll Bandaríkin í dag, þegar tunglfarinn Neil Armstrong var borinn til grafar í Cincinnati í Ohio. „Þakklát þjóð lofar og heiðrar auðmjúkan þjón, sem svaraði kallinu og þorði að láta sig dreyma,“ sagði Charles Bolden, yfirmaður bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, við útförina.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, gaf út tilskipun um það síðastliðinn mánudag að flaggað yrði í hálfa stöng við allar opinberar byggingar í dag. Armstrong lést 25. ágúst síðastliðinn vegna fylgikvilla í kjölfar hjartaðagerðar.

„Fyrstu skref Neil Armstrong á tunglinu ruddu braut annarra til að verða fyrstir til að stíga fæti á aðra plánetu,“ sagði Bolden. „Það er skylda okkar að halda í heiðri þessa einstöku amerísku arfleifð,“ sagði hann.

Armstrong kom m.a. til Íslands við undirbúning tunglferðarinnar árið 1969 en hann mat einkalíf sitt mikils og var útförin aðeins fyrir nánustu aðstandendur. Þá var stofnaður líknarsjóður við barnaspítalann í Cincinnati í dag, Armstrong til heiðurs, en fjölskylda hans hafði óskað eftir því að fólk gæfi heldur til góðgerðastarfa en að senda blóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert