Kobbi kviðrista fundinn?

Lengi hefur verið reynt að leysa gátuna um hver Kobbi …
Lengi hefur verið reynt að leysa gátuna um hver Kobbi kviðrista var í raun og veru.

Í meira en öld hafa menn velt fyrir sér hver raðmorðinginn Kobbi kviðrista, eða Jack the Ripper, hafi verið í raun og veru. Nú hafa tveir sérfræðingar í málefnum Kobba stigið fram og telja þeir sig hafa leyst ráðgátuna. Þetta kemur fram í frétt The Daily Telegraph um málið.

Þeir Christer Holmgren og Edward Stow segja að sá sem sé líklegastur til að hafa verið morðinginn sé Charles Cross, en hann sagðist hafa fundið fyrsta fórnarlamb Kobba, vændiskonuna Polly Nichols. Maður að nafni Robert Paul kom nefnilega að Cross stumrandi yfir líkinu. Cross sagði lögreglunni að hann hefði komið að líkinu. Holmgren og Stow segja að hugsanlega hafi Paul truflað Cross við að limlesta líkið af Polly Nichols.

Þá benda þeir á að hin morðin sem sagt er að Kobbi hafi framið hafi öll átt sér stað á milli heimilis Cross í Doveton Street, sem er í Bethnal Green hverfinu, og vinnustaðar hans í Broad Street, og að þau hafi öll átt sér stað á tímum þegar hann hafi verið að koma sér til vinnu. Stow sagði að þeir Holmgren hefðu einnig komist að því að Charles Cross hefði í raun heitið Charles Latchmere og því gefið upp rangt nafn hjá lögreglunni. 

Kobbi kviðrista myrti a.m.k fimm konur á tveggja mánaða tímabili frá september til nóvember 1888. Aldrei hefur verið upplýst hver var að verki, en ýmsir verið nefndir til sögunnar, þar á meðal Prins Albert Victor, barnabarn Viktoríu drottningar, og læknir hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert