16 ára dæmd til hýðingar

Maldíveyjar eru ekki paradís fyrir alla sem þar búa.
Maldíveyjar eru ekki paradís fyrir alla sem þar búa. Mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

16 ára gömul stúlka á Maldíveyjum hefur verið dæmd til refsingar fyrir þá sök að hafa stundað kynlíf með sér eldri manni. Hún þarf að þola 100 svipuhögg og sitja átta mánuði í stofufangelsi. Maðurinn, sem er 29 ára, var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að brjóta á barni undir lögaldri.

Stúlkan játaði að hafa stundað kynlíf með manninum eftir að fjölskylda hennar lagði fram kæru á hendur honum. Að sögn fjölmiðla á Maldívseyjum mun hýðing stúlkunnar ekki fara fram fyrr en hún hefur náð 18 ára aldri.

Aðeins tíu mánuðir eru liðnir síðan mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Navi Pillay, þrýsti á stjórnvöld í Maldíveyjum um að leggja af opinberar hýðingar á konum sem stunda kynlíf utan hjónabands. Pillay benti þá á að árangur hefði náðst á eyjunum við að tryggja réttindi 330.000 súnnímúslíma sem þar búa, en gera þyrfti meira til að tryggja réttindi kvenna. 

Hýðingarnar eru yfirleitt framkvæmdar af þorpshöfðingjum sem jafnframt fara með dómsvaldið í hverju þorpi. Spanskreyr er notaður til verksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert