Fyrsti maðurinn sem steig fæti á tunglið endar jarðvist sína á hafi úti, að sögn talsmanns fjölskyldu geimfarans Neils Armstrong.
Armstrong lést sem kunnugt er hinn 25. ágúst síðastliðinn, 82 ára að aldri. Hann komst í sögubækurnar árið 1969 þegar hann fór fyrstur frá borði Apollo 11 geimfarsins á yfirborði tunglsins.
Opinber minninarathöfn um Armstrong fer fram í höfuðborg Bandaríkjanna hinn 13. september. Búist er við því að núverandi og fyrrverandi geimfarar muni m.a. sækja hana, ásamt Charles Bolden yfirmanni NASA.
Eftir hina opinberlegu athöfn mun fjölskylda Armstrong fylgja honum til hinstu grafar sem að sögn talsmanns hennar verður á hafi úti. Ekki fylgir sögunni hvort lík geimfarans verði brennt og öskunni dreift, en fjölskyldan mun veita frekari upplýsingar síðar.