Faðirinn „hagaði sér undarlega“

Lögreglan við heimili al-Hilli-fjölskyldunnar í Bretlandi.
Lögreglan við heimili al-Hilli-fjölskyldunnar í Bretlandi. AFP

Breski maðurinn sem var skotinn til bana ásamt eiginkonu sinni og tengdamóður í frönsku Ölpunum hagaði sér undarlega dagana fyrir morðin að sögn sjónarvotta. Hann yfirgaf fjölskylduna nokkrum sinnum yfir daginn þar sem hún var stödd í sumarfríi í Frakklandi, og færði sig um set á milli tjaldsvæða með stuttum fyrirvara.

Saad al-Hilli skráði sig á tjaldsvæðið í Saint Jorioz á laugardeginum fyrir viku með mjög stuttum fyrirvara. Hann sagði öðru fólki á tjaldstæðinu að fjölskyldan ætlaði að dvelja þar í viku en á mánudag pökkuðu þau saman í skyndi og fluttu sig á annað tjaldsvæði, í aðeins nokkur hundruð metra fjarlægð.

Á meðan þau dvöldu á fyrra tjaldsvæðinu segja vitni að al-Hilli hafi ekið á brott 4-5 sinnum á dag og skilið fjölskyldu sína eftir.

Hollenskir ferðamenn, sem tjölduðu nálægt fjölskyldunni, segir að þau hafi sagst ætla að dvelja þar í viku en svo allt í einu flutt sig um set. Jan Janssen og vinkona hans Anne-Marie Souderman segja að fjölskyldufaðirinn hafi yfirgefið tjaldstæðið á bíl sínum 4-5 sinnum á dag, í um 20-30 mínútur í senn.

„Í fyrstu héldum við að hann væri að skreppa í búðina en okkur fannst skrítið hvað hann fór oft. Við sáum ömmuna og eldri stúlkuna. Þau höfðu aðeins hjólhýsið og okkur fannst það lítið fyrir fimm manns.“

Þau segjast ekki hafa séð neina koma í heimsókn til fjölskyldunnar á tjaldsvæðið.

Heimildarmaður Telegraph, sem vinnur að rannsókninni á morðunum, staðfestir að fjölskyldan hafi skyndilega skipt um tjaldsvæði. Þá segir hann einnig að al-Hilli hafi hitt nokkra á svæðinu síðustu dagana áður en fjölskyldan var myrt. Hann segir að verið sé að hafa uppi á því fólki og að rætt verði við það í tengslum við rannsóknina.

Sprengjusveit frá bresku lögreglunni leitaði á heimili al-Hilli-fjölskyldunnar í gær. Var svæði í nágrenni hússins rýmt á meðan. Samkvæmt sjónarvottum beindist rannsóknin aðallega að skúr í garði fjölskyldunnar. Lögreglan gaf síðar út að engin hættuleg efni hefðu fundist í leitinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert