„Það var ekkert lífsmark“

Lögregla á vettvangi í síðustu viku.
Lögregla á vettvangi í síðustu viku. AFP

Franskur göngumaður varð á vegi hjólreiðamannsins sem fyrstur kom á vettvang morðanna í frönsku Ölpunum. Göngumaðurinn segir hjólreiðamanninn hafa komið hlaupandi á móti sér í miklu uppnámi. Hann segir að mennirnir hafi sjálfir verið hræddir um að verða skotnir.

Philippe D, 41 árs, var á gangi ásamt tveimur vinkonum sínum í skóginum nálægt staðnum sem fólkið fannst myrt á. 

„Þessi maður kom svo hlaupandi í örvæntingu niður veginn,“ segir Philippe í viðtali við franskt dagblað í dag og sagt er frá á vef Telegraph. „Hann reyndi að útskýra á slæmri frönsku hvað hefði gerst.“

Hjólreiðamaðurinn vildi fá að hringja. Frakkinn elti því næst Bretann að bílnum en inni í honum voru þrjú lík. Þá hafði einnig hjólreiðmaður verið skotinn til bana á staðnum.

„Ég áttaði mig strax á því hvað hafði gerst. Ég nálgaðist bílinn. Ég snerti ekkert og sá strax að það var ekkert sem hægt var að gera. Það var ekkert lífsmark,“ segir hann.

Hann segist svo hafa séð hina sjö ára gömlu Zainab al-Hilli liggjandi á jörðinni en breski hjólreiðamaðurinn hafði komið henni fyrir í læstri hliðarlegu.

Saksóknarinn hefur hrósað Bretanum fyrir „stáltaugar“ er hann hlúði að stúlkunni en hún er nú að jafna sig á sjúkrahúsi í Grenoble.

„Hún svaraði okkur ekki. Ég klappaði saman höndum en hún brást ekkert við,“ segir  Philippe. „Ég sagði meira að segja nokkur orð á ensku, því ég sá að bíllinn var með breskum númerum en allt kom fyrir ekki. Ég hélt að hún væri dáin.“

Hann fór aðeins frá staðnum til að ná símasambandi og hringdi í lögregluna. Hann segir að þeir hafi svo orðið óttaslegnir enda vissu þeir ekki hvort morðingjarnir væru enn á svæðinu. „Við vissum ekki hvort við værum í hættu, ef þeir sem gerðu þetta væru ennþá á svæðinu eða ekki. Okkur fannst við vera að taka áhættu.“

Hann segir að ef þeir hefðu verið aðeins fyrr á ferð hefðu þeir getað týnt lífi. „Ég get ekki hætt að hugsa um þetta.“

Hann bætir við: „Það heyrðist ekkert hljóð. Þetta var eins og í kvikmynd. Líkt og í einum af þessum sjónvarpsþáttum sem byrja á morði. Nema núna vorum við í hlutverki aðalpersónanna og við gátum ekki skipt um sjónvarpsstöð.“

Þeir róuðust ekki fyrr en lögregla og sjúkralið kom á svæðið. Breski hjólreiðamaðurinn hefur sagt að hann hafi séð grænan bíl og mótorhjól yfirgefa svæðið stuttu áður en hann kom á vettvang. Frakkinn segist hins vegar ekkert hafa séð.

Göngumennirnir þrír fóru aftur á vettvang morðanna á sunnudag til að hjálpa lögreglu að gera sér grein fyrir aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert