Vettvangur morðanna í frönsku Ölpunum var eins og atriði úr glæpaþáttum í sjónvarpi, segir breskur hjólreiðamaður sem kom fyrstur á staðinn, aðeins stuttu eftir að ódæðið átti sér stað.
„Þetta var eiginlega eins og að koma á tökustað CSI Miami,“ segir Brett Martin við BBC. „Þarna var mikið blóð og byssukúlur í höfðum fólks.“
Hann segir að eldri dóttir hjónanna sem voru myrt, hin sjö ára gamla Zainab al-Hilli, hafi staðið á veginum snöktandi, en þó varla með meðvitund.
Martin, er fyrrverandi hermaður í breska flughernum. Hann sagðist hafa farið í hjólreiðaferð og komið að morðstaðnum. Er hann kom upp á hæð á veginum mætti honum gríðarlegt blóðbað. Fyrsta fórnarlambið sem hann kom auga á var franskur hjólreiðamaður sem morðinginn, eða morðingjarnir, höfðu skotið til bana.
„Þetta voru aðstæður sem ég hafði aldrei ímyndað mér að ég ætti eftir að lenda í,“ segir Martin. „Er ég kom á svæðið var hjólið það fyrsta sem ég sá. Ég hafði séð þennan hjólreiðamann á undan mér nokkru áður og ég hélt að hann væri bara að hvíla sig.“
En svo var ekki.
„Er ég kom nær sá ég ungt barn koma út á veginn og ég hélt að hún væri að leika sér við systkini sín,“ segir Martin en göngulag stúlkunnar var undarlegt.
„En ég ég kom nær sá ég að hún var alvarlega særð og það var mikið blóð á henni. Og er ég kom ennþá nær sá ég bílinn. Vélin var í gangi og hjólin snérust. Þetta leit því út fyrir að hafa verið mjög alvarlegt bílslys.“
Zainab litla hafði verið skotin í öxlina og barin. Foreldrar hennar, Saad and Iqbal, og amma hennar, Sylvain Mollier, höfðu verið skotin í höfuðið og voru látin.
Yngri systirin, Zeena, fannst ekki fyrr en átta tímum síðar, en hún hafði falið sig undir pilsi annarrar konunnar í aftursæti bílsins.
Eric Maillaud, franski saksóknarinn sem fer með rannsókn málsins, segir að ástæðu morðanna sé að leita í Bretlandi.
„Við erum á því að það hafi verið tilviljun að morðin voru framin í Annecy og það lítur út fyrir að upphaf þessa harmleiks megi rekja til Bretlands,“ sagði hann í dag við blaðamenn í heimsókn sinni í Surrey.