Yfirmenn NASA, Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, geimfarar, vinir og velunnarar vottuðu Neil Armstrong virðingu sína í dómkirkjunni í Washington í dag. Armstrong, sem steig fyrstur manna á tunglið hinn 20. júlí 1969, lést hinn 25. ágúst síðastliðinn, 82 ára að aldri.
Hann hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir störf sín og var heiðraður af 17 löndum. Honum féll illa frægðin og hélt sig fjarri sviðsljósinu lungann af ævi sinni.
„Armstrong var sá fyrsti til að stíga skref á nýjum slóðum, en hugrekki hans og auðmýkt gerði það að verkum að hann steig ofar okkur öllum,“ sagði Charles Bolden, forstjóri NASA, í minningarræðu við athöfnina.
Við athöfnina var flutt ræða Johns F. Kennedy, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, en hana hélt hann fyrir 50 árum og þar hét hann því að Bandaríkin myndu senda geimfar til tunglsins.
Meðal þeirra sem voru viðstaddir var Buzz Aldrin, sem var með Armstrong í hinni frægu geimferð til tunglsins, Appollo 11 og John Glenn, sem var fyrsti maðurinn til að fara um sporbaug jarðar.
Armstrong verður borinn til hinstu grafar á morgun.