Pro Deutschland, sem eru samtök hægriöfgamanna í Þýskalandi, vilja sýna hina umdeildu kvikmynd „Sakleysi múslímanna“ í kvikmyndahúsi í Berlín og segja þeir málið snúast um listsköpun og tjáningarfrelsi. Myndin hefur valdið miklu fjaðrafoki víða um hinn múslímska heim og hefur víða verið ráðist á sendiráð Bandaríkjanna vegna hennar.
Innanríkisráðherra Þýskalands, Hans-Peter Friedrich, sagði í samtali við þýska dagblaðið Der Spiegel í dag að hann myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til að koma í veg fyrir sýningu myndarinnar.
„Slíkir hópar og samtök vilja einungis ögra múslímum í Þýskalandi og hella olíu á eldinn,“ sagði hann.