Hvetja til hefndaraðgerða gegn Bandaríkjunum

Frá mótmælum við sendiráð Bandaríkjanna í Súdan.
Frá mótmælum við sendiráð Bandaríkjanna í Súdan. AFP

Samtökin al-Qaeda hvetja heimsbyggðina  til frekari mótmæla og aðgerða gegn Bandaríkjunum vegna kvikmyndarinnar „Sakleysi múslímanna“ sem sögð er draga dár að Múhameð spámanni.

Nakoula Besseley Nakoula, Egypti sem búsettur er í Bandaríkjunum, var í dag yfirheyrður af lögreglu en hann er grunaður um að hafa framleitt myndina í samstarfi við kristna bókstafstrúarmenn.

Al-Qaeda á Arabíuskaganum, AQAP, hvatti íbúa þar til ofbeldisaðgerða gegn sendiráðum Bandaríkjanna hvarvetna og hvetur múslíma í vestrænum löndum til að ráðast á „allt sem tengist Bandaríkjunum“. Til dæmis hafa verið unnin skemmdarverk á veitingastöðum bandarískra skyndibitakeðja, en einnig hefur verið ráðist að ýmsum stofnunum og fyrirtækjum sem tengjast Bandaríkjunum á einhvern hátt.

Ástandið gæti farið úr böndunum

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna ráðleggur bandarískum ríkisborgurum að yfirgefa Súdan og Túnis sem fyrst, en þar var ráðist að sendiráðum landsins. 

Leon Panetta, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að verið sé að skoða hvernig hægt sé að takast á við ástandið. „Við verðum að vera viðbúin því að ástandið fari úr böndunum,“ sagði Panetta í viðtali við tímaritið Foreign Policy í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert