Víða um heim voru fjölmenn mótmæli vegna kvikmyndar, sem sögð er sýna múslíma í óhagstæðu ljósi. Bandarísk stjórnvöld ráðleggja þegnum sínum að yfirgefa Súdan og Túnis hið fyrsta.
Lögreglan í Antwerpen í Belgíu handtók 120 manns í kvöld, sem mótmæltu kvikmyndinni. Fólkið kallaði slagorð gegn Bandaríkjunum og lofaði Múhameð spámann.
Meðal þeirra sem handteknir voru er leiðtogi múslímasamtakanna Sharia4Belgium.
Mótmælin voru skipulögð með fjöldasendingum á sms-skilaboðum og átök brutust út á milli lögreglu og mótmælenda er lögregla hugðist hindra ferðir mótmælenda. Lögregla beitti piparúða og kylfum, en enginn slasaðist.
Lögreglan í París handtók 100 manns sem höfðu safnast saman við sendiráð Bandaríkjanna í borginni. Lögregla telur að fólkið tengist salafistum, sem eru múslímskir bókstafstrúarmenn.
Mohamed Moussaoui, talsmaður samtaka múslíma í Frakklandi fordæmdi mótmælin og sagði að þeir sem hefðu tekið þátt í þeim væru ekki fulltrúar allra múslíma í landinu. „Múslímar ættu að beita löglegum og sanngjörnum aðferðum til að verja trú sína,“ sagði Moussaoui. Stærsta samfélag múslíma í Evrópu er í Frakklandi.
Bandarísk yfirvöld hafa ráðlagt þegnum sínum að yfirgefa Súdan og Túnis eftir árásir á sendiráð Bandaríkjanna þar í landi. Þá eru bandarískir ríkisborgarar varaðir við því að ferðast til þessara landa.