Innanríkisráðuneytið í Túnis hefur í hyggju að sækja alla þá til saka sem réðust á sendiráð Bandaríkjanna í Túnisborg í Túnis í gær. Lögreglan í borginni leitar nú leiðtoga hóps heittrúaðra múslíma, sem kallast salafistar, vegna málsins.
Fjórir létust og 49 særðust í árásinni sem var gerð til að mótmæla sýningu kvikmyndarinnar „Sakleysi múslíma“ sem sögð er innihalda atriði þar sem Múhameð spámaður er sýndur í miður hagstæðu ljósi.
Nú þegar hafa 75 verið handteknir vegna árásarinnar og fjölda manna er leitað í tengslum við hana. Bensínsprengjum var varpað og kveikt í byggingum og farartækjum.
Ennhada-flokkurinn, sem er við völd í landinu, segir að til hafi staðið að mótmæla á friðsamlegan hátt við sendiráðið, en „öfgahópar“ hafi séð sér leik á borði og hleypt ástandinu í bál og brand. „Þessir hópar notfæra sér ungt fólk í þessum tilgangi,“ sagði Ali Larayedh, innanríkisráðherra landsins, við AFP-fréttastofuna í dag.