Um eitt hundrað bandarískir ríkisborgarar hafa verið fluttir á brott frá Túnis eftir að ráðist var á sendiráð Bandaríkjanna í Túnisborg á föstudaginn. Sendiráðsfólk er meðal þeirra sem fóru úr landi.
Bandarísk stjórnvöld vara þegna sína við því að ferðast til Túnis og hvetur þá Bandaríkjamenn sem enn eru í landinu til að fara að öllu með gát og forðast að taka þátt í mótmælum.
Ástæða árásanna og mótmælanna er kvikmyndin „Sakleysi múslímanna“, framleidd í Bandaríkjunum, sem er sögð draga dár að Múhameð spámanni.
Tveir létust í bænum Warai í Pakistan í morgun þar sem verið var að mótmæla kvikmyndinni. Þar höfðu mörg þúsund manns safnast saman. Fólkið brenndi bandaríska fánann og bar eld að myndum af Barack Obama forseta Bandaríkjanna. Svipuð mótmæli fóru víða fram í dag.
Þegar hafa 19 manns látið lífið í mótmælum vegna myndarinnar víða um heim.