Hvatt til mótmæla

Leiðtogi Hezbollah-hreyfingarinnar í Líbanon, Hassan Nasrallah, hvetur múslíma til þess að taka þátt í mótmælum í landinu vegna kvikmyndarinnar „Sakleysi múslímanna“.

Í morgun tóku um eitt þúsund þátt í mótmælum í Kabúl, höfuðborg Afganistans, en um helgina var mótmælt víða um heim. Í Kabúl var kveikt í bifreiðum og grjóti kastað að herstöðvum Bandaríkjanna í borginni. Byssumenn sem tóku þátt í mótmælunum skutu í átt að lögreglu en enginn særðist, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Ljósmyndari AFP sem var á staðnum segir að mótmælendur hafi einnig kveikt í bíldekkjum og að svartur reykur sé yfir borginni.

Nasrallah flutti sjónvarpsávarp í morgun, einungis nokkrum klukkustundum eftir að heimsókn Benedikts XVI páfa lauk í Líbanon, en hann hefur verið í heimsókn í landinu undanfarna þrjá daga. Hvatti hann leiðtoga múslímaríkja í heimsókninni til að stuðla að friði í Mið-Austurlöndum.

Alls hafa fjórir mótmælendur fallið í átökunum, einn í Líbanon og þrír í Túnis, en mótmælin hafa nú staðið í fimm daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert