Yfir eitt þúsund Afganar tóku þátt í mótmælum í höfuðborg landsins, Kabúl, í morgun. Mótmælendur kveiktu í bifreiðum og öllu lauslegu en þeir mótmæltu kvikmynd þar sem gert er gys að Múhameð spámanni.
Kvikmyndin er kveikjan að mótmælum víðsvegar um heiminn undanfarna dag en hún nefnist Sakleysi múslíma. Hún var tekin í Bandaríkjunum, sett á netið fyrr á þessu ári og hafa atriði úr henni verið sýnd í arabískum sjónvarpsstöðvum.
Í henni er spámanninum Múhameð lýst sem flagara og hann gerður að blóðþyrstum leiðtoga manna sem njóta þess að drepa.
Myndin hefur verið rakin til manns í Kaliforníu, Nakoula Basseley Nakoula, sem hefur notað ýmis dulnefni. Leikarar í myndinni segja að þeir hafi verið notaðir og samtölum þar sem Múhameð er svívirtur verið bætt við síðar.
Bandarísk yfirvöld hafa ráðlagt þegnum sínum að yfirgefa Súdan og Túnis eftir árásir á sendiráð Bandaríkjanna þar í landi. Þá eru bandarískir ríkisborgarar varaðir við því að ferðast til þessara landa. Samtökin al-Qaeda hvetja heimsbyggðina til frekari mótmæla og aðgerða gegn Bandaríkjunum vegna myndarinnar.