Lögreglumenn sem eru að rannsaka morðin við Annecy-vatn í Frakklandi eru m.a. að rannsaka hvort morðinginn hafi verið á eftir hjólreiðamanninum sem fannst skammt frá bíl fjölskyldunnar sem myrt var.
Morðið á al-Hilli-fjölskyldunni vakti mikla athygli, en hjón og fullorðin kona fundust myrt í bíl í skóglendi nærri frönsku Ölpunum. Tvær ungar dætur hjónanna fundust á lífi, önnur var með alvarleg skotsár. Franskur hjólreiðamaður fannst látinn nærri bílnum, en fjölmiðlar hafa fjallað minna um hann.
Í frétt í Daily Mail segir að lögreglan sé m.a. að rannsaka þann möguleika að morðinginn hafi ætlað að myrða hjólreiðamanninn, en ekki al-Hilli-fjölskylduna.
Hjólreiðamaðurinn hét Sylvain Mollier og starfaði í kjarnorkuiðnaði. Hann var 45 ára gamall. Mollier var skotinn fimm skotum, þar af tveimur í höfuðið. Í fréttinni segir að lögreglan sé að rannsaka hvort Mollier hafi lifað tvöföldu lífi og morðinginn hafi verið á eftir honum.
Í fréttinni segir að Mollier hafi verið jarðsettur „tímabundið“ í gær, en fjölskylda hans hafi óskað eftir að lík hans yrði brennt.
Mollier starfaði hjá fyrirtæki sem heitir Cezus sem er í eigu Areva-fyrirtækjasteypunnar. Þýska tímaritið Der Spiegel hélt því fram árið 2007 að Areva hefði brotið bann Sameinuðu þjóðanna við sölu á úraníum til Írans. Fyrirtækið neitaði þessum fréttum.