Ellefu milljarðamæringar bættust í hóp auðkýfinga sem hafa tekið sig saman og hyggjast gefa helming auðæfa sinna til góðgerðarmála. Eru þeir nú orðnir 92 talsins.
Á meðal þeirra sem bættust nú í hópinn eru Reed Hastings, stjórnarformaður Netflix-veitunnar, Gordon Moore, annar stofnandi Intel, og Charles Bronfman, fyrrum yfirmaður Seagram. Þar voru fyrir menn á borð við Ted Turner, stofnanda CNN fréttastofunnar og George Lucas, kvikmyndagerðarmann.
Góðgerðarsjóðurinn The Giving Pledge var stofnaður árið 2010 af Bill Gates, stofnanda Microsoft, og Warren Buffett, fjárfesti. Þeir vilja fá ríkustu menn Bandaríkjanna til þess að gefa helming auðæfa sinna eða meira til góðgerðarmála. „Við höfum sagt frá byrjun að þetta væri langtímaverkefni, þannig að það er spennandi að sjá þessa framþróun síðustu tvö árin,“ sagði Gates, sem rekur einnig góðgerðarstofnun ásamt eiginkonu sinni Melindu. Hann bætti við að þessi nýi hópur bætti við mikilli reynslu úr bæði viðskiptum og góðgerðarmálum sem myndi hjálpa til við að auka umræður um það hvernig best væri hægt að koma bágstöddum til aðstoðar.