Fjárhagsaðstoð frestað

AFP

Óeirðirnar í Kaíró vegna myndarinnar sem múslímar líta á sem móðgun við spámanninn geta haft áhrif á fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna til Egyptalands. Um er að ræða einn milljarð Bandaríkjadala, 122 milljarða króna, samkvæmt frétt í bandaríska dagblaðinu Washington Post.

Fjárhagsaðstoðinni var ætlað að aðstoða Egypta í efnahagsmálum í kjölfar uppreisnarinnar í landinu á síðasta ári er forseti landsins, Hosni Mubarak, hraktist frá völdum.

Heimildir Post herma að Egyptar geti ekki búist við mikilli aðstoð af hálfu Bandaríkjamanna á næstunni og ljóst sé að engin slík aðstoð verði veitt fyrr en í fyrsta lagi eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum 6. nóvember nk.

Alls hafa þrjátíu týnt lífi í óeirðum eftir að brot úr myndinni  Innocence of Muslims var sett inn á YouTube. Talið er að öfgafullir kristnir menn hafi gert myndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert