12 létust og 11 særðust þegar sprengja sprakk í borginni Kabúl í Afganistan í morgun. Árásin er sögð tengjast sýningu kvikmyndarinnar „Sakleysi múslímanna“.
Um var að ræða sjálfsmorðssprengingu. Konan sem framdi verknaðinn ók bíl sínum, hlöðnum sprengiefnum, á flutningabíl skammt frá flugvellinum í borginni.
Meðal hinna látnu voru átta Suður-Afríkubúar, en hinir fjórir voru Afganar.
Hryðjuverkasamtökin Hezb-i-Islami, sem eru þau næststærstu í landinu, hafa lýst ódæðinu á hendur sér og segja það hafa verið framið til að hefna fyrir sýningu kvikmyndarinnar umdeildu. Samtökin lýsa sjaldan yfir ábyrgð á gjörðum sínum og fátítt er að konur taki þátt í sprengjuárásum með þessum hætti.
Kvikmyndinni hefur verið mótmælt síðan í gær í Afganistan og safnaðist nokkur mannfjöldi saman við herstöðvar Bandaríkjanna og urðu nokkur átök við lögreglu.