Frönskum skólum í Túnis hefur verið lokað og munu þeir ekki taka á móti nemendum fyrr en á mánudagsmorgun í öryggisskyni eftir að franska ádeiluritið Charlie Hebdo ákvað að birta skopmyndir af Múhameð spámanni.
Heimildir AFP úr sendiráði Frakklands í Túnis er þetta gert í öryggisskyni en engar hótanir hafi borist. Sendiráðið mun fylgjast grannt með stöðu mála á föstudag að afloknum föstudagsbænum.
Utanríkisráðuneyti Frakklands tilkynnti í morgun að Frakkar myndu loka sendiráðum og skólum sínum víða um heim vegna myndanna. Um er að ræða tuttugu lönd.
Utanríkisráðherrann, Laurent Fabius, segist hafa áhyggjur af málinu en vikuritið kom út í morgun og er nú til sölu í blaðastöndum víða um heim. Óeirðarlögregla hefur komið sér fyrir við ritstjórnarskrifstofu tímaritsins í París.
Um þrjátíu manns hafa látist frá því óeirðir brutust út þann 11. september sl. þegar stiklur úr kvikmynd sem þykir gera lítið í Múhameð spámanni voru birtar á YouTube.
forsíðu vikuritsins Charlie Hebdo í dag sést múslími í hjólastól sem gyðingur ýtir. Fyrirsögn myndarinnar er „Intouchables 2“ sem er vísun í frönsku myndina Intouchables sem meðal annars er sýnd um þessar mundir á Íslandi. Í myndinni er fjallað um samskipti fátæks blökkumanns sem starfar fyrir fatlaðan auðmann.
Á baksíðunni er síðan mynd af Múhameð þar sem hann berar afturendann fyrir kvikmyndatökuvélarnar og er þar vísað í kvikmynd með frönsku leikkonunni Brigitte Bardot frá árinu 1963.
Vefur Charlie Hebdo hrundi í morgun vegna mikil álags þar sem ummæli lesenda hrúguðust inn, bæði jákvæð og neikvæð.