Mótmæla myndbirtingum

Fjölmargir tóku þátt í mótmælum í Afganistan í dag.
Fjölmargir tóku þátt í mótmælum í Afganistan í dag. AFP

Hundruð Af­g­ana tóku í dag þátt í mót­mæl­um vegna birt­ing­ar skop­mynda í frönsku ádeilu­riti og kvik­mynd­ar þar sem lítið er gert úr Múhameð spá­manni í höfuðborg Af­gan­ist­an, Kabúl.

Um 300 náms­menn tóku þátt í mót­mæl­un­um þar sem Frökk­um og Banda­ríkja­mönn­um var hótað en mik­il reiði er meðal ým­issa mús­líma vegna kvik­mynd­ar­inn­ar „Sak­leysi mús­líma“. Ekki bætti úr skák er viku­ritið Charlie Hebdo birti í gær skop­mynd­ir af Múhameð spá­manni og bú­ist er við að mynd­irn­ar kyndi und­ir mót­mæl­um sem blossuðu upp í mús­líma­lönd­um í vik­unni sem leið vegna kvik­mynd­ar­inn­ar. Mót­mæli fóru einnig fram í fleiri borg­um í Af­gan­ist­an í morg­un.

Frönsk stjórn­völd hertu í gær ör­ygg­is­gæslu við sendi­ráð sín víða um heim og bönnuðu götu­mót­mæli í frönsk­um borg­um. Eins var frönsk­um skól­um, til að mynda í Tún­is, lokað fram yfir helgi í ör­ygg­is­skyni.

Franska tíma­ritið birti mynd­ir þar sem skop­ast er að kvik­mynd­inni um­deildu og á tveim­ur mynd­anna sést Múhameð spá­maður nak­inn. Eld­sprengj­um var kastað á bygg­ingu tíma­rits­ins í fyrra eft­ir að það birti skop­mynd­ir í sér­stakri út­gáfu, sem nefnd­ist Sharia Hebdo og var sögð vera í „gesta­rit­stjórn Múhameðs“.

Laurent Fabius, ut­an­rík­is­ráðherra Frakk­lands, sagði að bú­ist væri við mót­mæl­um vegna skop­mynd­anna og sagði að frönsk sendi­ráð í um 20 lönd­um yrðu lokuð á morg­un, föstu­dag.

Leiðtog­ar mús­líma í Frakklandi gagn­rýndu tíma­ritið fyr­ir að birta „móðgandi“ mynd­ir af Múhameð spá­manni en sögðu að les­in yrði yf­ir­lýs­ing í mosk­um eft­ir föstu­dags­bæn­ir á morg­un þar sem mús­lím­ar yrðu hvatt­ir til að efna ekki til mót­mæla.

Yfir 30 manns hafa beðið bana í mót­mæl­um og árás­um vegna kvik­mynd­ar­inn­ar „Sak­leysi mús­líma“, þeirra á meðal tólf sem féllu í sprengju­árás í Af­gan­ist­an í fyrra­dag. Í mynd­inni er Múhameð spá­manni lýst sem flag­ara og hann gerður að blóðþyrst­um leiðtoga manna sem njóti þess að drepa.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert