Vilja eignast fleiri en eitt barn

Mikill þrýstingur er á stjórnvöld í Kína að hverfa frá stefnu þeirra um að fjölskyldur megi ekki eiga fleiri en eitt barn. Tölur sýna að 4% allra barna látast áður en þau ná 25 ára aldri sem þýðir að um 10 milljón foreldrar eru barnlausir þegar þeir komast á elliár.

Kínversk stjórnvöld tóku árið 1978 ákvörðun um að hver fjölskylda mætti aðeins eignast eitt barn. Álitið er að þessi stefna hafi leitt til þess að 400 milljón færri börn hafi fæðst í Kína á árunum 1979-2011 en fæðst hefðu ef stefnan hefði ekki verið tekin upp. Stjórnvöld segja að ströng stefna sé nauðsynleg til að halda aftur af mannfjölgun í Kína. Stefnan hafi auk þess átt stóran þátt í að lyfta kínversku þjóðinni úr fátækt til meiri velmegunar.

En þessi stefna hefur ýmsar hliðar. Flestir Kínverjar vilja frekar einast son en dóttur og víða í Kína er hlutfallið milli kynjanna mjög ójafnt. Sú spurning vaknar hvar karlar eigi að finna maka þegar svo fáar konur fæðast.

Einnig eru margar fjölskyldur í þeirri stöðu að hafa misst sitt eina barn. Meðal þeirra er Wu Rui, en dóttir hennar lést úr flogaveiki þegar hún var 12 ára gömul. Það er hefð í Kína að börn sjá um umönnun foreldra sinna þegar þau eldast en það tryggir þeim fjárhagslegt öryggi.

Wu segist kvíða því að eldast þar sem hún eigi engin börn. Hún segir að margar fjölskyldur séu í sömu stöðu.

Stefna kínverskra stjórnvalda veldur því einnig að hlutfall aldraðra hækkar stöðugt og stöðugt færri koma til með að standa undir umönnun þeirra sem hættir eru að vinna.

Í dag eru 180 milljónir Kínverja 60 ára og eldri eða um 13% þjóðarinnar. Þessi tala verður komin upp í 360 milljónir eftir 20 ár og þá verða aldraðir í Kína orðnir fleiri en öll bandaríska þjóðin. Um miðja öldina verða aldraðir Kínverjar um 480 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert