Dómstóll í Rússlandi hefur lagt bann við sýningu kvikmyndarinnar umdeildu „Sakleysi múslímanna“. Mannréttindasamtök í landinu krefjast þess aftur á móti að myndin verði sýnd og segja að með því að banna sýningu hennar sé verið að skerða tjáningarfrelsi.
Bannið var staðfest við réttarhöld í Moskvu í dag.
Umboðsmaður mannréttinda í Rússlandi sagði við réttarhöldin að hann væri mótfallinn banninu og fjöldi listamanna og fjölmiðlafólks biðlaði til Pútíns forseta um að láta ekki verða af banninu.
„Myrkustu öfl í heimi hryðjuverkasamtaka eru að reyna að hrella siðmenningu okkar og neyða okkur til að samþykkja skoðanir sínar,“ segir í opnu bréfi til Pútíns.