Baumgartner lentur heill á húfi

Baumgartner skömmu fyrir stökkið.
Baumgartner skömmu fyrir stökkið. AFP

Austurríkismaðurinn Felix Baumgartner er lentur heilu og höldnu eftir að hann stökk úr um 39 kílómetra hæð til jarðar. Þetta er hæsta fallhlífarstökk sem nokkur maður hefur stokkið.

Baumgartner var um 10 mínútur á leiðinni niður áður en hann lenti í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum um kl. 18. 15 í dag.  

Með þessu afreki sínu sló ofurhuginn 52 ára gamalt heimsmet Joseph Kittinger, fyrrverandi ofursta í bandaríska hernum. Kittinger aðstoðaði Baumgartner í undirbúningi sínum.
 
Baumgartner fór upp stökkhæðina í sérútbúnum loftbelg. Þar hafðist hann við í hylki sem hélt á honum hita og veitti honum upplýsingar úr stjórnstöð bandaríska hersins. Hann var jafnframt í sérútbúnum búning sem varði hann fyrir þeim ólífvænlegu aðstæðum sem eru í svo mikilli hæð.

Baumgartner lagði af stað með loftbelgnum um klukkan hálf fjögur í dag. Rúmum tveimur og hálfum tíma síðar stökk hann út úr hylkinu. Hundruð milljóna manna fylgdust með stökki Baumgartners á netinu.

AFP
Eva Baumgartner móðir Felix fylgist með.
Eva Baumgartner móðir Felix fylgist með. STEFAN AUFSCHNAITER
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert