Grikkir leggja niður störf í dag

Veggspjald, þar sem mótmælin og verkfallið í dag er auglýst.
Veggspjald, þar sem mótmælin og verkfallið í dag er auglýst. AFP

Þúsundir Grikkja munu leggja niður störf í dag til að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði hins opinbera. Þetta verður fjórða allsherjarverkfallið í ár og það hefur víðtæk áhrif. Lestar- og ferjuferðir munu stöðvast, veruleg röskun verður á flugsamgöngum og ýmis opinber þjónusta verður ekki veitt í dag.

Verkalýðsfélögin í landinu vilja með þessu senda stjórnvöldum skilaboð um að þriðja niðurskurðarárið í röð verði ekki liðið.

Hafa ekki efni á að fara í verkfall

Ýmis verkalýðs- og stéttarfélög hafa skipulagt fjöldafundi í höfuðborginni Aþenu og í borginni Þessalóníku í dag, en búist er við því að verkfallið hafi einkum áhrif í stærri borgum landsins. Margir Grikkir segja að vegna fjárhagserfiðleika og hættunnar á því að missa starfið, þá sé það ekki inni í myndinni að taka þátt í verkfallinu.

„Hvað haldið þið að ég sé, milljónamæringur eða skipakóngur sem hefur efni á að fara í verkfall?“ spurði eigandi söluturns í Aþenu sem opnaði verslun sína eins og venjulega í morgun, þrátt fyrir að stéttarfélag hans hefði ákveðið að taka þátt í allsherjarverkfallinu.

Grikkir vilja lengri frest

Gríska ríkisstjórnin, undir forystu Antonis Samaras, ræðir í dag við helstu lánardrottna sína, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Seðlabanka Evrópu, um lánveitingar sem eiga að koma í veg fyrir gjaldþrot Grikklands.

Þessir þrír aðilar, sem gjarnan eru nefndir „þríeykið“ í þessu sambandi, hafa farið fram á það við Grikki að skera niður opinber útgjöld sem samsvarar 9,2 milljörðum evra á næsta ári. Að öðrum kosti fái þeir ekki 31,5 milljarða evra lán í næsta mánuði.

Það lán er hluti af stærri pakka; 130 milljarða láni frá þríeykinu. En það er háð því að Grikkir skeri niður. Samaras rær nú öllum árum að því að fá þríeykið til að gefa Grikkjum lengri frest til að verða við þessum kröfum.

Tvö ár af niðurskurði

Undanfarin tvö ár hafa verið tímabil samfells niðurskurðar í Grikklandi. Laun hafa verið lækkuð og ýmis félagsleg réttindi skert. Nú er einn af hverjum fjórum Grikkjum atvinnulaus, samkvæmt opinberum tölum. En verkalýðsfélög telja að talsvert fleiri séu án vinnu.

Frá mótmælum í Grikklandi.
Frá mótmælum í Grikklandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert