Hjólreiðamaðurinn var skotmarkið

Rannsókn á morðunum við Annecy-vatn í Frakklandi 5. september sl. hefur leitt í ljós að hjólreiðamaðurinn Sylvain Mollier var skotmark morðingjans en ekki bresk fjölskylda sem var á svæðinu. Mollier sem var 45 ára Frakki starfaði í kjarnorkuiðnaði.

Hingað til hefur því verið haldið fram að morðinginn hafi ætlað sér að myrða al-Hilli-fjölskylduna en hjólreiðamaðurinn hafi verið á röngum stað á röngum tíma. Saad al-Hilli og kona hans fundust myrt í bíl í skóglendi við Annecy-vatn nærri frönsku Ölpunum. Tvær dætur þeirra lifðu af, önnur alvarlega slösuð en hin faldi sig undir líki móður sinnar. Móðuramma stúlknanna var einnig myrt.

Skammt frá bíl þeirra fannst svo lík Mollier sem var einnig skotinn til bana. Mikið hefur verið fjallað um morðin og nánast gengið út frá því að þau tengdust fjölskyldunni. Því hefur minna farið fyrir umfjöllun um Mollier.

Franskir fjölmiðlar greina nú frá því að rannsókn lögreglu bendi til þess að Mollier hafi verið skotmarkið. Hann hafi verið skotinn fyrstur og byssumaðurinn hafi þá ekki vitað af al-Hilli fjölskyldunni.

Saad al-Hilli hafi þá verið fyrir utan bíl sinn. Hafi hann hlaupið inn og reynt að komast burtu en bíllinn spólað í leðju. Byssumaðurinn hafi því næst gengið að bílnum og látið kúlnahríð rigna yfir fjölskylduna.

Þá hafi byssumaðurinn snúið sér aftur að Mollier og skotið hann aftur. 

Talið er fullvíst að aðeins hafi verið um einn árásarmann að ræða. Hegðun hans á vettvangi bendi þá til þess að ekki sé um leiguimorðingja að ræða. 

Mollier starfaði hjá fyrirtæki sem heitir Cezus sem er í eigu Areva-fyrirtækjasteypunnar. Þýska tímaritið Der Spiegel hélt því fram árið 2007 að Areva hefði brotið bann Sameinuðu þjóðanna við sölu á úraníum til Írans. Fyrirtækið neitaði því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert