Mitchell neyddist til að segja af sér

Andrew Mitchell blölvaði lögreglukonunni í sand og ösku.
Andrew Mitchell blölvaði lögreglukonunni í sand og ösku. AFP

Andrew Mitchell, þingflokksformaður breska Íhaldsflokksins, sagði af sér embætti í dag en hann hefur setið undir harðri gagnrýni fyrir dónaskap gagnvart lögreglukonu þegar hún gegndi öryggisgæslu við Downings-stræti, bústað forsætisráðherrans.

Mikið hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum í Bretlandi og það hefur verið vandræðalegt fyrir Íhaldsflokkinn.

Atvikið átti sér stað í lok september. Mitchell var að fara frá Downing-stræti og hugðist fara út um aðalhliðið á reiðhjóli sínu. Lögreglukonan segist hafi bent Mitchell á að gert væri ráð fyrir að þeir sem væru á hjóli færu út um annað hlið sem væri ætlað þeim sem væru fótgangandi.

Mitchell sætti sig ekki við þetta og deildi við lögreglukonuna um stund. Hann gekk síðan að hliðinu með lögreglukonunni sem opnaði fyrir hann hliðið.  Lögreglukonan segir að hann hafi þá látið falla orð sem í lauslegri þýðingu hljóma eftirfarandi: „Það er best fyrir þig að vita hvar í andskotanum þú átt að vera. Þú stjórnar ekki þessari andskotans ríkisstjórn. Þú ert ekkert annað en andskotans plebbi.“

Lögreglukonan segir að allmargir hafi heyrt Mitchell viðhafa þessi orð. Hann hafi síðan haldið áfram að bölva. Hann hafi þá verið varaður við að hann kynni að verða sektaður fyrir að bölva á almannafæri. Hann hafi þagnað en síðan sagt við lögreglukonuna að hún væri ekki búin að bíta úr nálinni með þetta.

Mitchell hefur viðurkennt að hafa bölvað, en neitar því harðlega að hafa notað orðið „plebbi“. Samtök lögreglumanna stóðu með lögreglukonunni og á endanum var málið farið að snúast um hvort Mitchell ætti að komast upp með að halda fram að lögreglukonan og aðrir sem urðu vitni að ummælunum hefðu logið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert