Lögreglan veit ekki hvert fórnarlamba skotárásarinnar í frönsku Ölpunum var skotið fyrst en í gær sögðu franskir og breskir fjölmiðlar frá því að hugsanlega hefði franski hjólreiðamaðurinn verið skotmarkið, ekki fjölskyldan í bílnum. Fjórir fundust látnir á staðnum: Hjón, móðir eiginkonunnar og hjólreiðamaður.
Saksóknarinn sem fer með rannsókna hafnar því að lögreglan viti hvert var skotmark morðingjans eða morðingjanna.
„Ekkert hefur enn staðfest í hvaða röð fólkið var tekið af lífi,“ segir franski saksóknarinn Eric Maillaud.
Franska blaðið Le Parisien birti frétt á vefsíðu sinni í gær um að rannsóknin hefði nú þegar leitt í ljós að hjólreiðamaðurinn Sylvain Mollier hefði verið fyrsta fórnarlambið. Áður hefur verið talið að hann hafi komið að vettvangi glæpsins og verið skotinn.
„Sérfræðingar hafa sagt að þeir geti ekki með fullri vissu sagt hver var skotinn fyrst,“ segir Maillaud.
Enn miðar lögreglu ekkert við að finna út hver stóð að baki morðunum sem vöktu mikinn óhug og gríðarlega athygli. Tvær dætur hjónanna lifðu árásina af og fannst önnur þeirra undir líki móður sinnar, átta tímum eftir að árásin var gerð.
Saad al-Hilli, 50 ára, eiginkonan Iqbal, 47, og móðir hennar, Suhaila al-Allaf, 74 ára, fundust látin í bíl í frönsku Ölpunum 5. september. Hjólreiðamaðurinn fannst einnig látinn á staðnum.
Sjö ára dóttir hjónanna, Zainab, fannst illa haldin og skotin í öxlina fyrir utan bílinn. Hún lifði árásina af.
Fjögurra ára systir hennar fannst á lífi í bílnum, falin undir pilsi móður sinnar.
Le Parisien sagði einnig í frétt sinni í gær að sérfræðingar teldu að fjölskyldufaðirinn hefði fyrst verið skotinn fyrir utan bílinn. Hann hafi svo verið skotinn aftur eftir að hafa sest undir stýri að nýju. Blaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum að morðinginn hafi drepið alla fjölskylduna og skotið svo hjólreiðamanninn aftur og þar með drepið hann. Þetta hafi sérfræðingar fundið út með því að rannsaka hvar skotin hæfðu fólkið.