Norskur liðsfélagi Armstrong játar lyfjanotkun

Steffen Kjærgaard játar lyfjanotkun sína á blaðamannafundi í Ósló í …
Steffen Kjærgaard játar lyfjanotkun sína á blaðamannafundi í Ósló í dag. Hann var liðsfélagi Armstrong 2000 og 2001. mbl.is/afp

Enn einn fyrrverandi liðsfélagi Lance Armstrong hjá US Postal-hjólreiðaliðinu kom fram í dag og játaði að hafa neytt lyfja og sprautað sig með hinu ólöglega lyfi EPO - sem eykur framleiðslu rauðra blóðkorna í líkamanum - er hann keppti við hlið Armstrong í Frakklandsreiðinni (Tour de France).

Um er að ræða norska hjólreiðamanninn Steffen Kjærgaard, sem segist hafa fyrst neytt lyfja til að auka getu sína er hann var liðsmaður dansks hjólreiðaliðs árið 1998. Kveðst hann hafa átt frumkvæðið að því sjálfur. Segist hann hafa notið ráðgjafar belgísk læknis, George Mouton, um hvernig hann ætti að komast hjá því að vera gómaður á lyfjaprófi.

Kjærgaard gekk til liðs við US Postal árið 2000 og keppti sem félagi Armstrong í Tour de France það ár og 2001. Hann segir að mjög rammt hafi kveðið að lyfjanotkun sem hafi verið grasserandi í hjólreiðum atvinnumanna á þessum tíma. Hann segir að starfsmenn liðsins hafi skipulagt allt í þaula og séð um og stjórnað lyfjanotkuninni. „Liðið sá um þetta allt,“ sagði Kjærgaard á blaðamannafundi í dag.

„Ég get fyrir sjálfan mig gengið út frá því að aðrir í liðinu voru þátttakendur í lyfjaneyslunni,“ bætti hann við.  Ellefu fyrrverandi liðsfélagar Armstrong hjá US Postal-liðinu hafa áður vitnað gegn honum og skýrt frá kerfisbundinni lyfjaneyslu innan liðsins þegar Armstrong var upp á sitt besta. Allt hafi það verið gert til að vinna stærstu mót hjólreiðanna. 

Armstrong var í gær dæmdur í lífstíðarbann frá hjólreiðum og sviptur öllum titlum sem hann hafði unnið frá í ágúst 1998 er hann sneri til baka til keppni eftir uppskurð og geislameðferð við krabbameini í eistum.

Norskur liðsfélagi Armstrong sprautaði sig með EPO er þeir voru …
Norskur liðsfélagi Armstrong sprautaði sig með EPO er þeir voru liðsfélagar. Liðið sá um allt lyfjakramið, segir hann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert