Sænska tískuvörufyrirtækið H&M neitar ásökunum að fyrirtækið borgi svo lág laun í verksmiðju í Kambódíu að það jafnist á við þrælahald.
Forstjóri H&M, Karl-Johan Persson, segir ekkert hæft í ásökunum sem koma fram í heimildarmynd sem sýnd verður á TV4 sjónvarpsstöðinni í Svíþjóð í kvöld. Þar kemur fram að starfsmenn verksmiðju sem vinnur fyrir H&M fái svo lág laun að þau dugi ekki fyrir fæði starfsmanna.
Samkvæmt frétt TT fréttastofunnar fá starfsmenn greiddar 58 sænskar krónur, rúmar eitt þúsund íslenskar krónur fyrir sjötíu klukkustunda langa vinnuviku.
H&M bauð TV4 til Kambódíu þar sem sjónvarpsfólkið hitti starfsfólk verksmiðjunnar að máli þar sem það mótmælti launum hjá verksmiðjunni. Í myndinni kemur fram að H&M hafi neitað að verða við kröfum starfsmannanna.
Persson segir í samtali við Expressen ekkert hæft í þessu heldur kenni H&M starfsmönnum hvernig þeir eigi að semja um laun við vinnuveitendur sína. Fyrirtækið vilji að verkamennirnir fái hærri laun og það beiti nú stjórnvöld í Kambódíu þrýstingi um að hækka lágmarkslaun í landinu.