Breskur verkfræðingur sem myrtur var í frönsku Ölpunum 5. september kann að hafa haft aðgang að bankareikningi sem eitt sinn tilheyrði Saddam Hussein, fyrrverandi leiðtoga Íraks. Milljarðar eru sagðir vera á reikningnum.
Þetta kemur fram í breska blaðinu Telegraph. Fjórir voru myrtir við Annecy-vatn í Frakklandi 5. september, Saad Al-Hilli, sem fæddur er í Írak, Iqbal kona hans, Suhaila Al-Allaf móðir hennar og Sylvain Mollier, franskur hjólreiðamaður. Tvær ungar dætur hjónanna lifðu skotárásina af.
Enginn hefur verið handtekinn vegna skotárásarinnar og lögregla hefur ekkert gefið uppi um mögulegt tilefni morðanna.
Í Telegraph segir að leyniþjónustumenn í Berlín hafi komist yfir gögn sem bendi til þess að Al-Hilli hafi haft aðgang að leynireikningi sem eitt sinn tilheyrði Saddam Hussein. Þetta veki grunsemdir um að morðinginn hafi verið að reyna að komast yfir fjármuni, sem m.a. eru taldir vera á leynireikningum í Sviss.