Stofnandi Poly Implant Prothese (PIP), Jean-Claude Mas, 73 ára, var látinn laus úr fangelsi í dag en hann var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í mars fyrir að neita að greiða tryggingu. Láta átti Mas lausan í júlí en varðhaldið var framlengt um fjóra mánuði vegna ótta um að hann myndi forða sér úr landi.
Mas var ákærður í janúar fyrir að að hafa valdið konum alvarlegum skaða með framleiðslu sinni. Þrátt fyrir að vera laus úr haldi þarf hann að láta vita af sér í hverri viku. PIP-fyrirtækið hætti starfsemi árið 2010 eftir að í ljós kom að það hafði notað iðnaðarsílikon í brjóstapúða sína.
Er talið að á milli 400 og 500 þúsund konur í 65 löndum hafi fengið PIP-púða en fyrirtækið var á sínum tíma eitt af þremur stærstu framleiðendum brjóstapúða í heiminum.