Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lofaði íbúum í New Jersey ríki langtímastuðningi hins opinbera vegna þess tjóns sem þeir hafa orðið fyrir vegna fellibylsins Sandyar. „Þið eruð í hugsunum mínum og bænum. Við verðum til staðar fyrir ykkur áfram,“ sagði forsetinn er hann heimsótti neyðarskýli í bænum Brigantine, skammt frá Atlantic City.
Með honum í för var ríkisstjórinn í New Jersey, Chris Christie.
„Fyrst á dagskrá er að koma rafmagni á, augljóslega þarf að hreinsa til og þetta mun þýða talsverð útgjöld,“ sagði Obama. Hann lagði áherslu á að fljótt yrði brugðist við. „Við líðum enga skriffinnsku. Við munum gæta þess að þið fáið aðstoð eins fljótt og hægt er.“
Christie er Repúblikani og hefur hingað til ekki sparað stóru orðin við að lýsa ókostum Obama. Því hefur það komið mörgum á óvart, ekki síst flokksfélögum hans, að hann hefur lofað viðbrögð forsetans við hamförunum. „Það er mikilvægt að forseti Bandaríkjanna átti sig á þeirri þjáningu sem ríkir meðal fólks hér í New Jersey og ég kann vel að meta það,“ sagði Christie í dag. „Við munum vinna saman að því að koma okkur út úr þessu ástandi.“