Hætt við New York-maraþonið

Loftmynd af Queens-hverfinu í New York eftir að fellibylurinn Sandy …
Loftmynd af Queens-hverfinu í New York eftir að fellibylurinn Sandy reið þar yfir. Reuters

Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, tilkynnti í dag að fallið hefði verið frá því að halda maraþonið sem er kennt við borgina á sunnudaginn kemur. Búist var við um 40.000 þátttakendum að þessu sinni. Ástæðan er gagnrýni á að hlaupið skyldi fara fram þrátt fyrir hörmungar af völdum fellibyljarins Sandy.

Um fjörutíu manna hópur Íslendinga ætlaði að taka þátt í hlaupinu eins og greint hefur verið frá á mbl.is en því hefur nú verið aflýst.

Hlaupið átti að hefjast á Staten Island en eyjan fór einna verst út úr fárviðrinu. Talið er að minnst 19 hafi týnt þar lífi. Hótelhaldarar á The Hilton Garden Inn á Staten Island tóku þátt í mótmælum gegn því að hlaupið færi fram og lýstu því yfir að þeir myndu ekki hýsa hlaupara, jafnvel þótt þeir ættu þar þegar bókað herbergi.

Þá kemur fram í frétt CBS-News um málið að mörgum hafi ekki þótt við hæfi að fjöldi lögreglumanna yrði upptekinn við að gæta hlauparanna á sunnudag í miðjum önnum.

En mikið álag hefur verið á lögregluna í Stóra eplinu vegna hamfaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert