Talið er að tæplega 100 dauðsföll í Bandaríkjunum megi rekja til ofsaveðursins Sandy. Um 4,5 milljónir manna í 12 ríkjum eru enn án rafmagns.
New Yorkborg og New Jersey urðu verst úti og er nú eldsneytisskorts farið að gæta á svæðinu. Íbúar í bænum Queens, þar sem yfir 50 hús brunnu til kaldara kola í ofsaveðrinu, eru orðnir þreyttir á að bíða eftir aðstoð en gríðarleg eyðilegging varð í bænum að völdum fellibylsins.
Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, segir að Sandy sé hugsanlega orsök loftslagsbreytinga.
Sandy kom upp að austurströnd Bandaríkjanna aðfararnótt mánudags. Í kjölfarið fylgdu flóð og rafmagnsleysi mjög víða. Um 4,5 milljónir manna í 12 ríkjum eru enn án rafmagns, segir í frétt BBC.
Fyrirtækið Eqecat telur að kostnaður vegna fellibylsins geti numið 50 milljörðum dala eða yfir 6.300 milljörðum króna. Það er um helmingi meira en fyrirtækið hafði áður spáð.
Þjóðvarnarliðið stendur nú í ströngu við að færa íbúum New York, sem verst urðu úti, matargjafir. Milljónir máltíða og flöskum með vatni verður útbýtt meðal íbúanna.
Í gær fundust 15 lík á Staten Island í suðurhluta New York. Enn eru samgöngur úr lagi enda mikið vatn enn í neðanjarðarlestargöngum. Þó er vonast til að fleiri lestir muni ganga í dag, föstudag, en í gær.
Í Hoboken, New Jersey, eru enn um 20 þúsund manns innlyksa í húsum sínum þar sem vatn er enn yfir öllu vegna flóðanna sem fylgdu fellibylnum. Heilbrigðisyfirvöld vara fólk við því að ganga um í vatninu sem er orðið mengað af sorpi og skólpi.
Þjóðvarnarliðið vinnur að því að koma öllum í öruggt skjól en um 1,7 milljónir manna á svæðinu eru án rafmagns.