Rafmagn er loks komið á nánast alla Manhattan eftir að fellibylurinn Sandy reið yfir Austurströnd Bandaríkjanna. Enn er þó skortur á eldsneyti en að öðru leyti virðist athafnalíf New York borgar að færast í eðlilegt horf.
Viðgerðarmenn eru að störfum víða og eins er unnið að hreinsun. Vonast er til þess að skólastarf geti hafist í borginni á ný á mánudag og að kjörstaðir verði tilbúnir fyrir forsetakosningarnar á þriðjudag.
Annars staðar í New York ríki er víða enn rafmagnslaust en alls létust 22 í ríkinu í fellibylnum. Í Bandaríkjunum eru dauðsföllin orðin 103 sem vitað er um.
Ríkisstjóri New Jersey, Chris Christie, hefur tilkynnt um að eldsneyti verði skammtað í ríkinu og er það gert í þeirri von að hægt verði að stytta biðraðirnar við bensínstöðvar.
Frá og með deginum í dag mega þeir sem eru með númeraplötu á bifreiðum sínum sem enda á sléttri tölu taka eldsneyti á dagsetningum sem eru sléttar tölur og öfugt þegar kemur að oddatölum.