Í hinum afskekktu Jinggang fjöllum í Kína eru þjálfunarbúðir fyrir verðandi framtíðarleiðtoga kínverska kommúnistaflokksins. Áður voru skæruliðar Mao Zedong þjálfaðir í þessum sömu búðum. Þannig reyna stjórnvöld að halda veikri tengingu við byltingarhugsjónina sem eitt sinn var.
Frá dauða Maós árið 1976 hafa orðið umskipti í stjórnarfari Kína og stjórnvöld fetað sig sífellt lengra í átt að einhvers konar ríkisstýrðum kapítalisma. Kommúnistaflokkurinn hefur átt nokkuð erfitt með að halda jafnvægi milli raunveruleikans og þeirrar ímyndar sem hann kennir sig við, ekki síst vegna hneykslismála hins fyrrverandi hátt setta Bo Xilai.
Í næstu viku fara fram stjórnarskipti í landinu, sem gerist einu sinni á áratug en margir þeir sem þá komast til valda hafa undanfarið fengið þjálfun í Jingganshan leiðtogaskólanum, þar sem þeim er ætlað að dýpka skilning sinn á byltingunni og hugsjón Maó.