Fengu fimm atkvæði hvor í Dixville Notch

Kosningar fara fram í Bandaríkjunum í dag en kosningu er …
Kosningar fara fram í Bandaríkjunum í dag en kosningu er lokið í Dixville Notch. AFP

Kosningu er lokið í smábænum Dixville Notch í New Hampshire í Bandaríkjunum. Barack Obama forseti fékk fimm atkvæði og Mitt Romney fékk einnig fimm atkvæði.

Íbúar í Dixville Notch hafa síðustu áratugina lagt metnað sinn í að kjósa snemma og vera fyrst til að birta úrslit. Kjörfundur hófst skömmu eftir miðnætti og er kosningu lokið og úrslit liggja fyrir. Báðir frambjóðendur fengu fimm atkvæði.

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem úrslitin eru jöfn í Dixville Notch. Í síðustu kosningum fékk Obama fleiri atkvæði en keppinautur hans, en frá 1960-2008 fékk frambjóðandi Repúblikanaflokksins alltaf meirihluta atkvæða í bænum.

Kosningu er einnig lokið í Hart's Location í New Hampshire. Þar fékk Obama 23 atkvæði og Romney 9 atkvæði. Frjálslyndi frambjóðandinn Gary Johnson fékk eitt atkvæði. Tæplega sex mínútur tók að ljúka kosningu í þessari kjördeild.

Skoðanakannanir sýna að mjög lítill munur er á fylgi frambjóðenda á landsvísu. Nýjustu kannanir benda til að fylgi Obama sé einu prósentustigi meira en fylgi Romneys.

Forsetakosningar fara fram í dag, en auk þess er kosið til fulltrúadeildarinnar og hluta öldungadeildarinnar. Þá eru 13 ríkisstjórar kosnir í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka