Hvaðan kemur fylgið?

Hér er sýnt hvernig ýmsir þjóðfélagshópar kusu í síðustu forsetakosningum, …
Hér er sýnt hvernig ýmsir þjóðfélagshópar kusu í síðustu forsetakosningum, árið 2008 og hvernig atkvæðin skiptast nú, samkvæmt könnunum. AFP

Allnokkur munur er á því hvaðan fylgi þeirra Obama og Romneys kemur. Samkvæmt könnunum virðist Obama sækja fylgi sitt í ríkara mæli til fólks með annan hörundslit en hvítan en Romney hefur meira fylgi meðal hvítra Bandaríkjamanna.

„Uppskrift Obama að sigri er að fá atkvæði a.m.k. 80% minnihlutahópa og um 40% af atkvæðum hvítra Bandaríkjamanna, svo framarlega sem minnihlutahópar verða 26% kjósenda eins og raunin var í síðustu kosningum,“ segir Ron Brownstein, helsti stjórnmálaskýrandi bandarísku fréttastöðvarinnar CNN.

„Síðustu skoðanakannanir sýna að fylgi Obama er einmitt á mörkum þessa, bæði meðal hvítra og minnihlutahópa. Þetta sýnir að fátt skiptir meira máli í kosningunum en samsetning kjósendahópsins,“ segir Brownstein.

Því hagnast Obama á sem mestri kjörsókn minnihlutahópa. Brownstein segir að kjörsókn fólks í þessum hópi hafi aukist jafnt og þétt á sama tíma og kjörsókn hvítra Bandaríkjamanna hafi dalað allt frá forsetakosningunum 1992.

Tapar fylgi meðal ungra kjósenda

Fylgistap Obama meðal ungra kjósenda er umtalsvert, en árið 2008 fékk hann atkvæði 66% kjósenda á aldrinum 18-29 ára . Nú er honum spáð 58% atkvæða kjósenda í þessum aldurshópi. Engu að síður nýtur hann töluvert meira fylgis meðal fólks á þessum aldri en Romney, eins og sjá má af meðfylgjandi skýringarmynd. Fylgi þeirra Obama og Romneys er svipað hjá öllum öðrum aldurshópum, nema hjá fólki sem er eldra en 60 ára, en þar er forskot Romneys umtalsvert.

Romney nær síður til kvenna

Romney virðist ekki höfða meira til kvenna en John McCain, frambjóðandi Repúblikanaflokksins fyrir fjórum árum. Árið 2008 kusu 43% kvenna McCain og nú hyggjast 42% þeirra kjósa Romney.

76% kjósenda sem tilheyra evangelískum trúfélögum ætla að kjósa Romney. Um er að ræða tegund mótmælendatrúar. til dæmis er íslenska þjóðkirkjan evangelísk lútersk, en hún á lítið sameiginlegt með sumum evangelískum trúfélögum í Bandaríkjunum sem hallast sum að bókstafstrú. Af einstökum trúfélögum er fylgi Obama mest á meðal gyðinga, eða 59%.

Af einstökum landshlutum Bandaríkjanna er fylgi Romneys mest í Suðurríkjunum, en þar nýtur hann 53% fylgis. Fylgi Obama er mest í Norðausturríkjunum, 54%.

Láta stuðninginn í ljós á ýmsan hátt

Kjósendur láta stuðning sinn við frambjóðendur í ljós með ýmsum hætti. Sumir láta sér nægja að næla merki í barminn á meðan aðrir ganga lengra og bregða á sig andlitsgrímum í líki frambjóðenda, eins og myndirnar hér að neðan sýna.

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka