Bandaríska blaðið Wall Street Journal segir að það hafi komist yfir upplýsingar sem bendi til að breski kaupsýslumaðurinn Neil Heywood, sem lést fyrir einu ári, hafi komið upplýsingum til bresku leyniþjónustunnar MI6.
Þetta mál hefur komið róti á stjórnmál í Kína því að Gu Kailai, eiginkona kínverska stjórnmálamannsins Bo Xilai, hefur verið sökuð um að hafa myrt Heywood. Bo hefur verið sviptur embætti og verður hugsanlega ákærður fyrir spillingu. Áður en þetta mál kom upp þótti líklegt að Bo myndi sækjast eftir forystu í kínverska kommúnistaflokknum.
William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í apríl á þessu ári að Heywood hefði ekki á nokkurn hátt starfað fyrir breska ríkið.
Allt frá því að Heywood lést hafa verið vangaveltur um hvort hann hafi verið njósnari. Wall Street Journal segir í frétt sinni að þó að Heywood hafi ekki verið starfsmaður MI6 hafi hann komið upplýsingum til leyniþjónustunnar.