Niðurskurðaráætlanir ríkisstjórnar Grikklands voru samþykktar á gríska þinginu fyrir skömmu þrátt fyrir gríðarleg mótmæli um allt land í kvöld.
Með þessu er talið tryggt að Grikkir fái greidda næstu greiðslu úr björgunarsjóðum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Hins vegar var frumvarpið samþykkt með naumum meirihluta eða einungis þremur atkvæðum. 153-150.
Niðurskurður upp á 13,5 milljarða evra þýðir að skattar verða hækkaðir og lífeyrisgreiðslur lækkaðar.
Fyrr í kvöld sprautaði lögregla táragasi að mótmælendum er mótmælendur köstuðu í þá bensínsprengjum í Aþenu, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.
Forsætisráðherra Grikklands, Antonis Samaras, varaði þingheim við því áður en atkvæðagreiðslan hófst að ef ekki kæmi til björgunarpakkans þá yrði Grikkland gjaldþrota í þessum mánuði með tilheyrandi hörmungum.