Mitt Romney viðurkenndi ósigur sinn í forsetakosningunum fyrir framan stuðningsmenn sína í Boston í nótt. Barack Obama hefur því fengið skýrt umboð til að gegna embættinu í fjögur ár í viðbót.
Áður en Romney hélt ræðuna hringdi hann í Obama forseta og óskaði honum til hamingju með sigurinn.
„Þá tel líka rétt að óska stuðningsmönnum hans og þeim sem tóku þátt í kosningabaráttu hans til hamingju,“ sagði Romney. „Ég vil sérstaklega óska forsetanum alls hins besta, sömuleiðis eiginkonu hans og dætrum.“
Romney þakkaði stuðningsmönnum sínum fyrir alla þá vinnu sem þeir hefðu lagt á sig. Hann þakkaði Paul Ryan varaforsetaefni sínu fyrir samstarfið og sagði að hann hefði verið besti frambjóðandi sem hann hefði getað valið.
Í ræðunni lagði Romney áherslu á að nú væri rétti tíminn til að taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni flokka. Hann hvatti stjórnmálamenn til samvinnu í efnahagsmálum.
Talningu í kosningunum er ekki lokið, en flest bendir til að Obama hafi unnið sigur í öllum þeim ríkjum sem harðast var barist í nema Norður-Karólínu. Úrslit liggja ekki fyrir í Flórída, en þar er Obama með naumt forskot samkvæmt nýjustu tölum. Úrslitin í Flórída skipta ekki máli fyrst Obama sigrar í Ohio, Virginíu, Colorado og fleiri ríkjum þar sem naumt var milli frambjóðenda. Obama hefur þegar tryggt sér 303 kjörmenn, en hann þarf 270 kjörmenn til að sigra.
Talningu er ekki lokið í öllum ríkjum þó nokkuð ljóst sé hver sigrar í þeim flestum. Allt bendir til að Obama fái líka meirihluta atkvæða. Samkvæmt síðustu tölum hefur Obama fengið 49,4% atkvæða en Romney 49,1%. Samkvæmt tölunum er Obama með um 250 þúsund fleiri atkvæði en Romney.
Úrslitin þykja söguleg í ljósi erfiðs ástands efnahagsmála í Bandaríkjunum, lítils hagvaxtar og mikils atvinnuleysis. Niðurstaðan lá fyrir þegar Obama var lýstur sigurvegari í kosningunum í Ohioríki sem var eitt 10 ríkja sem úrslit kosninganna voru talin geta ráðist í.