Tveir frambjóðendur í kosningum sem fram fóru í Bandaríkjunum samhliða forsetakosningunum náðu kjöri þrátt fyrir að vera ekki lengur ofan jarðar. Báðir mennirnir létust nokkrum vikum áður en kosningarnar fóru fram í gær en sigruðu engu að síður mótframbjóðendur sína sem voru enn á meðal lifenda.
Demókratinn Earl K. Wood var endurkjörinn í tólfta sinn sem skattheimtumaður í Orange-sýslu í Flórída en hann lést 15. október síðastliðinn 96 ára að aldri. Hann hafði ekki ætlað að sækjast eftir endurkjöri en skipti um skoðun þegar hann komst að því að gamall fjandvinur hans hefði hug á embættinu. Hann hlaut 56% atkvæða.
Repúblikaninn Charles Beasley lést 12. október 77 ára að aldri en hann var þá í framboði til sýslunefndar í heimaríki hans Alabama. Hann hlaut 52% atkvæða en mun líkt og Wood eðli málsins samkvæmt ekki taka við embættinu.
Mótframbjóðandi Beasley tók ósigrinum frekar illa samkvæmt frétt Reuters-fréttaveitunnar og sagði við fjölmiðla að það væri erfið staða að keppa við látinn mann. Það væru takmörk fyrir því hvað væri hægt að segja.