Konur skiptu sköpum í kosningunum

Konur á kjörstað í Los Angeles.
Konur á kjörstað í Los Angeles. AFP

Þegar Barack Obama skrifaði undir lög um jöfn laun fyrir fólk af báðum kynjum, var sagt að hann væri að reyna að höfða til kvenkjósenda. Þegar frambjóðendur repúblikana fengu bágt fyrir að tala klaufalega og af fáfræði um nauðganir og fóstureyðingar sögðu stuðningsmenn þeirra að verið væri að reyna að dreifa athyglinni frá því sem raunverulega skipti máli.

En málefni sem snúa aðallega að konum eru ekki jaðarumræðuefni. Konur eru ekki minnihlutahópur í stjórnmálum nútímans.

Í bandarísku forsetakosningunum voru 53% kjósenda konur. Atkvæði þeirra höfðu  úrslitaáhrif en hlutfallslega fleiri konur kusu Barack Obama en Romney, segir í ítarlegri fréttaskýringu BBC um málið.

En kosningarnar voru sögulegar í öðru tilliti. Aldrei hafa fleiri konur verið kosnar til setu á þingi, bæði í öldungadeild og fulltrúadeild. Þeirra á meðal er fyrsti opinberlega samkynhneigði öldungadeildarþingmaðurinn, Tammy Baldwin, fyrsti öldungadeildarþingmaðurinn af asískum uppruna, Mazie Hirono, og fyrsti kvenkyns hermaðurinn sem særðist í orrustu var kosinn inn í fulltrúadeildina, Tammy Duckworth.

Massachusetts kaus fyrsta kvenkyns öldungadeildarþingmann sinn og New Hampshire er fyrsta ríkið þar sem þingmannahópurinn er eingöngu skipaður konum.

Í fyrsta sinn í sögunni eru hvítir karlar ekki meirihluti þingmanna demókrata í fulltrúadeildinni.

Sjá ítarlega fréttaskýringu BBC hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert