Fallið er hátt fyrir hinn fyrrum flekklausa hershöfðingja David Petraeus, sem sagði af sér starfi yfirmanns CIA á föstudag. Margir hafa furðað sig á því að framhjáhald í einkalífinu sé slík dauðasynd, en málið er flóknara en svo og snertir m.a. hugsanlegt aðgengi hjákonu hans að trúnaðargögnum bandarísku leyniþjónustunnar.
Ástkonan sendi hótunarbréf
Framhjáhald herforingjans var ekki afhjúpað af papparössum á síðum slúðurblaða, heldur var það sjálf alríkislögreglan, FBI, sem fletti ofan af því. Upphaf málsins var ítrekuð hótunarbréf sem Paula Broadwell ævisagnaritari hershöfðingjans, sem komið hefur í ljós að var hjákona hans, sendi annarri konu. Sú nefnist Jill Kelley og er fjölskylduvinur Petraeus-hjónanna en ekki er talið að hún sé á neinn hátt viðriðin málið.
Kelley þessi óttaðist um öryggi sitt og hafði samband við FBI sem hóf rannsókn á hótunarbréfunum. Talið var að hver sá sem sendi bréfin hefði hugsanlega öðlast aðgang að persónulegu tölvupóstfangi Petraeus, að sögn Washington Post. Eins og gefur að skilja þætti mörgum andstæðingum Bandaríkjanna mikill happafengur að hvers kyns aðgangi að yfirmanni njósnastarfseminnar, og má nefna að CIA verður fyrir stöðugum tölvuárásum hakkara sem reyna að komast yfir slíkar upplýsingar.
Óviðunandi framferði
Síðsumars voru bréfin rakin til ævisagnaritarans og við rannsókn á tölvu hennar kom upp úr dúrnum að hún hafði átt í ástarsambandi við hershöfðingjann. Broadwell og Petraeus voru bæði boðuð til yfirheyrslu hjá FBI í lok október og málið var opinberað 9. nóvember þegar Petraeus sagði af sér með þeim orðum að þetta væri „óviðunandi“ framferði fyrir mann í hans stöðu.
Málið hefur vakið mikið fjaðrafok í Bandaríkjunum og hafa stjórnmálamenn bæði innan demókrata- og repúblikanaflokksins krafist frekari skýringa á því hvers vegna Barack Obama Bandaríkjaforseti var ekki upplýstur af hálfu FBI fyrr en 7. nóvember, á sjálfan kjördaginn, og hvort þjóðaröryggi hafi hugsanlega verið stefnt í hættu. „Það er eitthvað sem ekki gengur upp,“ hefur CNN eftir Peter King, repúblikana og formanni varnarmálanefndar bandaríska þingsins.
Breyskleiki batt enda á glæstan feril
Petraeus, sem varð sextugur í síðustu viku, sat aðeins í 15 mánuði sem yfirmaður CIA en hann á að baki glæstan feril sem fjögurra stjörnu herforingi. Hann hóf klif sitt upp metorðastiga hersins við upphaf 10. áratugarins, eftir að hafa lokið doktorsgráðu í alþjóðasamskiptum frá Princeton-háskóla, og vakti athygli fyrir nálgun sína í Bosníu og Hersegóvínu og Írak. Það varð til þess að hann var skipaður æðsti hershöfðingi í Írak 2007 og Afganistan 2010, áður en Barack Obama útnefndi hann sem yfirmann CIA í ársbyrjun 2011. Petraeus naut því mikils traust forseta beggja flokka, Obama og forvera hans í embætti, George W. Bush.
Eiginkona Petraeus til 37 ára er Holly Petraeus, áður Knowlton, sem sjálf hefur helgað sig störfum fyrir Bandaríkjaher og m.a. unnið ötullega að fjárhagslegum stuðningi við fjölskyldur hermanna. Saman eiga þau hjón tvö börn.
Konan sem er í forgrunni þessa mikla hneykslismáls er hins vegar Paula Broadwell. Broadwell, sem er 20 árum yngri, hitti Petraeus fyrst þegar hann hélt erindi á útskrift hennar við Harvard-háskóla, þaðan sem hún lauk meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu árið 2006. Hún tjáði honum áhuga sinn á hernaði og baráttunni gegn hryðjuverkum, og hann gaf henni nafnspjaldið sitt, að sögn New York Times. Stuttu síðar fór hún þess á leit að gera hann að viðfangsefni doktorsritgerðar sinnar. Hófst þar náið samstarf þeirra sem þróaðist þannig að doktorsritgerðin varð að bók.
Fótboltamamma og hvers manns hugljúfi
Titill bókarinnar, sem kom út fyrr á þessu ári, er nokkuð kaldhæðnislegur í ljósi þess sem nú er komið upp á yfirborðið. Broadwell nefndi bók sína um hershöfðingjann All in: The Education of General David Petraeus. Gárungarnir segja nú ljóst að hershöfðinginn hafi sannarlega „gefið sig allan“ gagnvart ævisagnaritaranum - og lært sína lexíu.
Fjölmiðlar vestra reyna nú að púsla saman mynd af þessari konu sem varð einum af æðstu mönnum Bandaríkjanna að falli. New York Times hefur eftir nágrönnum Broadwell í Norður-Karólínu að hún sé fótboltamamma og góður granni. Hún var fyrirmyndarnemandi og „drottning“ á útskriftarballinu, er gift geislafræðingi og á tvo drengi. Fjölmiðlar hafa setið um heimili fjölskyldunnar um helgina, en þar er engin hreyfing. Breska blaðið Telegraph segir að einu merkin þar um líf fjölskyldunnar sé skilaboð sem krotuð hafa verið með krít í heimkeyrsluna: „Pabbi hjarta mamma“.
Lagði niður allar varnir
Á tveggja ára tímabili meðan Broadwell skrifaði bókina vörðu þau Petraeus löngum stundum saman þar sem hún tók við hann viðtöl, bæði í herstöðinni í Tampa í Flórída, en einnig í Kabúl í Afganistan þangað sem Broadwell kom sex sinnum og var eins og grár köttur í kringum hershöfðingjann. Þau fóru oft út að hlaupa saman og urðu mjög náin.
Hún var talin kappsöm og stefna til metorða innan bandarískra varnarmála en sumum samstarfsmönnum hans þótti nærvera hennar og nánd við hershöfðingjann óþægileg. Haft er eftir ofurstanum Peter Mansoor að honum hafi þótt undarlegt hve mikið traust Petraeus hafði á Broadwell, sem hafði hvorki starfað sem blaðamaður né skrifað bók áður. Hann, sem vanur var að gefa blaðamönnum takmarkaðan aðgang og gæta vel að ímynd sinni, er sagður hafa lagt niður allar varnir gagnvart henni.
Predikaði um sjálfsaga og ráðvendni
Ljóst er að flestum þykir mikil eftirsjá að starfskröfum Petraeus og var hann hylltur af mörgum bandarískum þingmönnum í fjölmiðlum í gær sem sannur leiðtogi og föðurlandsvinur. Dómgreind hershöfðingjans virðist þó hafa brostið þegar kom að nánu samneyti við ævisagnaritarann.
Margir undirmenn hans í hernum eru sagðir agndofa yfir því að Petraeus hafi misstigið sig svo hrapallega. Washington Post segir að hershöfðinginn hafi sýknt og heilagt áminnt starfslið sitt um að sýna sjálfsaga og ráðvendni. Sjálfur hafi hann alla tíð virst hafa fullkomna sjálfstjórn við sín störf þrátt fyrir mikið álag.
Birti mynd á Facebook
Náin samskipti Petraeus og Broadwell héldu áfram eftir að hann hætti í hernum og hóf störf hjá CIA og hefur Petraeus sjálfur sagt að sjálf ástarsambandið hafi fyrst byrjað í nóvember 2011. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér þær viðkvæmu upplýsingar sem maður í þessari stöðu býr yfir. Eins og gefur að skilja ríkir mikil leyndarhyggja innan CIA. Þar eru dæmi um hjón sem starfa hvort í sinni deildinni en deila engum upplýsingum hvort með öðru um eigin störf. Óheftur aðgangur Broadwell að Petraeus varð því mörgum áhyggjuefni.
Eitt dæmi um atvik sem ekki þótti við hæfi og kom starfsfólki CIA á óvart var þegar Broadwell birti ljósmynd á facebooksíðu sinni af Petraeus með leikkonunni Angelinu Jolie. Myndin var tekin skrifstofu hans á 7. hæð höfuðstöðva CIA, þar sem myndatökur eru ekki heimilar nema af hálfu opinbers ljósmyndara leyniþjónustunnar. Það að Broadwell hafi birt myndina á Facebook var að sögn Washington Post ekki eitt og sér talið ógn við þjóðaröryggi, en þykir gefa vísbendingar um skeytingarleysi parsins gagnvart öryggisreglum.
Þingmannanefnd vill rannsókn
FBI hefur sagt að eftir rannsóknina sé málið ekki talið varða þjóðaröryggi. Varnarmálanefnd Bandaríkjaþings hefur engu að síður farið fram á það að fá ítarlegri upplýsingar um rannsókn FBI og skýringar á því hvers vegna Barack Obama var ekki upplýstur fyrr. „Augljóslega er hér um að ræða mál sem hugsanlega stofnaði þjóðaröryggi í hættu og forsetinn hefði átt að fá að vita af því strax á frumstigi,“ hefur New York Times eftir Peter King, formanni nefndarinnar.
Bandaríkjaþing er lokað í dag vegna dags uppgjafarhermanna en á morgun munu fulltrúar FBI og CIA funda með þingmönnum til að upplýsa þá nánar um rannsóknina og stöðu mála.