Ver morðóðan bróður sinn

Mohamed Merah.
Mohamed Merah. AFP

Systir Mohameds Merahs, mannsins sem skaut sjö til bana í borginni Toulouse í Frakklandi í mars, sætir nú lögreglurannsókn eftir að hafa sagst í heimildarmynd vera stolt af bróður sínum.

Málið mun snúast um það hvort systirin, Souad Merah, hafi brotið gegn grein hryðjuverkalaga sem bannar fólki að verja hryðjuverk opinberlega.

Í fréttaskýringarþætti sem sýndur var á M6-sjónvarpsstöðinni í gær var m.a. myndskeið af systurinni, tekið upp án hennar vitundar, þar sem hún sagðist stolt af bróður sínum fyrir að hafa barist til síðasta blóðdropa.

Mohamed Merah skaut rabbína, þrjú börn og þrjá lögreglu- og hermenn í Toulouse í mars. Umsátur um hús hans stóð í fleiri klukkustundir en hann var loks skotinn til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert