John Kerry sem varnarmálaráðherra?

John Kerry öldungadeildarþingmaður Massachusetts ávarpar flokksþing demókrata.
John Kerry öldungadeildarþingmaður Massachusetts ávarpar flokksþing demókrata. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti er nú sagður íhuga að fara þess á leit við John Kerry að hann setjist í stól varnarmálaráðherra. Kerry hefur verið orðaður við utanríkisráðuneytið sem eftirmaður Hillary Clinton, en forsetinn virðist hafa annað í huga fyrir hann ef marka má Washington Post.

Obama þarf nú að stokka upp í varnarmálaliði sínu, eftir afsögn Davids H. Petraeus, fráfarandi yfirmanns CIA. Talsmenn Hvíta hússins segja að engar ákvarðanir hafi enn verið teknar um hvernig skipað verði í þessi æðstu embætti, en talið er að John O. Brennan, sem er æðsti ráðgjafi forsetans í baráttunni gegn hryðjuverkum, sé líklegasti kandídatinn til að taka við af Petraeus, ef hann kærir sig um það. Ekki liggur fyrir hver muni þá taka við af honum.

Hillary Clinton hefur tilkynnt að hún vilji hætta í ríkisstjórn á næsta ári og er John Kerry, öldungadeildarþingmaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi demókrata, sagður sækjast eftir starfinu. Nú er hins vegar haft eftir ráðamönnum í Washington að Obama muni líklega skipa Susan E. Rice, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, sem næsta utanríkisráðherra. 

Leon E. Panetta, sitjandi varnarmálaráðherra, segist ekki ætla að hætta á næstunni en hefur þó gefið til kynna að ólíklegt sé að hann sitji út næsta kjörtímabil Obama. John Kerry er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar þingsins. Hann hefur ekki viljað tjá sig um orðróminn um varnarmálaráðuneytið, en ónefndir heimildarmenn segja Washington Post að hann sé talinn sniðinn í starfið.

Kerry gegndi hermennsku í Víetnam á sínum tíma en þekkir einnig vel til fjárhagslegu hliðarinnar, sem vegur þungt í varnarmálum, auk þess að hafa reynslu sem diplómati.

John Kerry á fundi utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings.
John Kerry á fundi utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert