Leitað á heimili ástkonunnar

David Petraeus og Paula Broadwell
David Petraeus og Paula Broadwell AFP

Bandaríska alríkislögreglan leitar nú á heimili konunnar sem átti í ástarsambandi við fyrrverandi forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar, David Petraeus.

Talskona FBI, Shelley Lynch, staðfestir þetta í samtali við breska ríkisútvarpið, að leitað sé á heimili Paulu Broadwell's í Charlotte, Norður-Karólínu.

Að sögn Lynch komu starfsmenn FBI á heimili Broadwell klukkan 21 að staðartíma, klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma. Komu þeir til leitarinnar með kassa þannig að líklegt þykir að verið sé að safna saman gögnum hjá henni.

Petraeus sagði af sér á föstudag skömmu áður en upplýst var um ástarsamband hans og Broadwell sem skrifaði ævisögu hans.

Sambandið kom í ljós eftir að önnur kona, Jill Kelley, greindi FBI frá því að hún hafi fengið nafnlaus hótunarbréf í tölvupósti.

AFP-fréttastofan hefur það eftir heimildarmanni innan varnarmálaráðuneytisins að yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins í Afganistan, John Allen, sé til rannsóknar vegna óviðeigandi tölvubréfa sem Jill Kelly fékk send. Svo virðist sem FBI hafi fundið um 30 þúsund blaðsíður af samskiptum milli Allens og Kelley við rannsóknina.

Holly og David Petraeus
Holly og David Petraeus AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert